Draumurinn

 

Draumurinn segir frá afdrifaríku atviki sem setur líf tilvonandi knattspyrnuhetju á annan endann, enda á það sér stað viku áður en Íslandsmótið í 4. flokki hófst. Á daginn kemur að þó að refsingin virtist í fyrstu alveg hræðileg reynist hún síðan vera það besta sem komið gat fyrir.

Bókin fjallar um drauminn um að slá í gegn á knattspyrnuvellinum ásamt því að sigrast á innri baráttu. Draumurinn, sem er innblásinn af Grettis sögu, kom út í október 2018.

 

Brot úr verkinu

Atvikið sem breytti lífi mínu átti sér stað viku áður en Íslandsmótið í 4. flokki hófst. Refsingin virtist í fyrstu alveg hræðileg og gera endanlega út um drauminn … en reyndist síðan það besta sem hefur komið fyrir mig. Alveg þangað til ég ákvað að hætta í fótbolta.

Ég hljóp í geðshræringu frá markinu, bjó mig undir geðveikar móttökur hjá strákunum og fagnaðaróp áhorfenda. En það var bara þögn.

Liðsfélagar mínir stóðu í hnapp, ringlaðir á svip og andstæðingarnir – þeir voru brjálaðir! Þeir hópuðust að mér og kölluðu mig öllum illum nöfnum. Dómarinn kom aðvífandi, líka Gunni þjálfari og þjálfari Glámsmanna líka … það var allt að verða vitlaust og ég skildi ekkert. Vorum við ekki að vinna leikinn?

Af hverju ég?

Bókin segir frá Agli, ungum dreng sem elst upp í Borgarnesi. Hann á ekki sjö dagana sæla þar sem hann á það til að lenda í vandræðum, eða veseni eins og hann kallar það sjálfur. Sjálfur vill hann þó meina að árekstrar hans við skólafélaga og fjölskyldumeðlimi séu alls ekki sér að kenna. Þvert á móti sé hann betur gefinn en flestir samferðamenn sínir en þrátt fyrir það lendir hann fyrir sakir óheppni sinnar og ósanngirni annarra í veseni.

Höfundurinn

Hjalti Halldórsson (f. 1980) er grunnskólakennari og hefur starfað við kennslu á mið- og unglingastigi í grunnskóla frá árinu 2005. Í dag er hann starfandi sem samfélagsfræðikennari á unglingastigi í Langholtsskóla í Reykjavík en vann áður í Salaskóla í Kópavogi. Hann er með BA próf í sagnfræði og kennsluréttindi frá Háskóla Íslands en lagði einnig stund á mannfræðinám.