Bækurnar

Draumurinn

Draumurinn segir frá afdrifaríku atviki sem setur líf tilvonandi knattspyrnuhetju á annan endann, enda á það sér stað viku áður en Íslandsmótið í 4. flokki hófst. Á daginn kemur að þó að refsingin virtist í fyrstu alveg hræðileg reynist hún síðan vera það besta sem komið gat fyrir.

Bókin fjallar um drauminn um að slá í gegn á knattspyrnuvellinum ásamt því að sigrast á innri baráttu. Draumurinn, sem er innblásinn af Grettis sögu, kom út í október 2018.

 

Brot úr verkinu

Atvikið sem breytti lífi mínu átti sér stað viku áður en Íslandsmótið í 4. flokki hófst. Refsingin virtist í fyrstu alveg hræðileg og gera endanlega út um drauminn … en reyndist síðan það besta sem hefur komið fyrir mig. Alveg þangað til ég ákvað að hætta í fótbolta.

Ég hljóp í geðshræringu frá markinu, bjó mig undir geðveikar móttökur hjá strákuknum og fagnaðaróp áhorfenda. En það var bara þögn.

Liðsfélagar mínir stóðu í hnapp, ringlaðir á svip og andstæðingarnir – þeir voru brjálaðir! Þeir hópuðust að mér og kölluðu mig öllum illum nöfnum. Dómarinn kom aðvífandi, líka Gunni þjálfari og þjálfari Glámsmanna líka … það var allt að verða vitlaust og ég skildi ekkert. Vorum við ekki að vinna leikinn?

 

Af hverju ég?

Bókin segir frá Agli, ungum dreng sem elst upp í Borgarnesi. Hann á ekki sjö dagana sæla þar sem hann á það til að lenda í vandræðum, eða veseni eins og hann kallar það sjálfur. Sjálfur vill hann þó meina að árekstrar hans við skólafélaga og fjölskyldumeðlimi séu alls ekki sér að kenna. Þvert á móti sé hann betur gefinn en flestir samferðamenn sínir en þrátt fyrir það lendir hann fyrir sakir óheppni sinnar og ósanngirni annarra í veseni.

Í bókinni segir Egill sjálfur frá og fær lesandinn þannig að kynnast hans sýn á lífið og tilveruna. Hann er harla óvenjuleg aðalpersóna að því leyti að hann er vissulega óstýrilátur og einþykkur og ekki oft sem slík persónueinkenni fá rödd í barnabókmenntum. Þá eru atvikin sem Egill segir frá, þótt spaugileg séu, nokkuð alvarleg þar sem þau lýsa þrá hans eftir viðurkenningu og vináttu sem hann skortir. Það er sérstaklega samband Egils við eldri bróður sinn sem sagan hverfist um. Léttleikinn er þó í fyrirrúmi og sagan er fyrst og fremst hressandi og gauralega saga af strák.

Sagan inniheldur augljósar tilvísanir í hina aldagömlu Egilssögu án þess þó að vera hliðstæða hennar. Egill nútímans á sitt eigið líf og að engu háður gamla Agli þó hann upplifi ef til vill svipaðar aðstæður og hann. Viljandi eru þó notast við sömu nöfn og staðhætti og í Egils sögu. Við sögu koma m.a. Grímur pabbi hans, Tóti (Þórólfur) bróðir og Brák litla. Þannig tengir bókin saman fornsöguna Egils sögu og Sögu Egils og er í besta falli líkleg til að vekja áhuga á fornbókmenntum Íslendinga! Bókin kom út ó nóvember 2017.

Brot úr verkinu

Ég rankaði við mér þar sem ég sat á miðjum vígvellinum. Þau sem eftir voru á skólalóðinni stóðu í hæfilegri fjarlægð og störðu á mig með galopin augu og hökuna niður á bringu. Ég sat með krosslagða fætur, húfuna ofan í augum og með snjóbolta á milli handanna. Snjóboltann hnoðaði ég aftur og aftur eins og tilgangurinn væri að gera harðasta snjóbolta í veröldinni.

Þau sáu líka hvernig afmyndað og alltof stórt andlitið var sigið ofan í hálsmálið á flíspeysunni sem umlukti óeðlilega þykkan hálsinn. Hart og grimmilegt augnaráðið var starandi og svartar augabrúnirnar náðu saman í stórt og illskulegt vaff ofan við öskuill augun. Úlfgrátt víravirkið gægðist út undan húfunni.

Ég hafði háð stríð.